Straumar á fleygiferð: Seinni hluti

Raunveruleikinn bankaði upp á í formi faraldurs og samfélagið leitar jafnvægis.

Við kveðjum þann gamla og áttum okkur á þeim nýja.

Ný norm.

Eða eins og utanríkisráðherra Breta orðaði það fyrir skömmu…

‘We will need to adjust to a new normal where we as a society adapt to safe new ways to work, to travel, to interact and to go about our daily lives.’

Þarna er eiginlega allt undir yfir lengri tíma.

Ég nefndi fimm strauma sem faraldurinn hefur flýtt fyrir eða ýtt undir og við hjá Data Lab Ísland höfum ríka ástæðu til að fylgjast með.

Ég fjallaði um fyrstu tvo hér um daginn, þ.e. snjallvæðinguna og inngrip hins opinbera.

Kíkjum á síðustu þrjá.

Þeir eiga það sameiginlegt að gera ráð fyrir að reynsla okkar og viðbrögð við faraldrinum feli í sér lexíu sem yfirfærist á önnur svið. Að raunverulegar breytingar muni fylgja í kjölfarið.

Það er auðvelt að efast um það en höfum í huga að breytingar þurfa ekki að eiga sér stað hjá mjög stórum hópi til að hafa mikil og varanleg áhrif á allt samfélagið.

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi

Þúfan þarf bara að vera nægjanlega stór og “rétt” staðsett til að hafa þessi úrslitaáhrif.

Straumarnir fimm

  1. Snjallvæðing veitir forskotið
  2. Hið opinbera á og má
  3. Heima er best
  4. Faraldurslexían yfirfærist
  5. Gagnadrifin barátta skilar árangri

Heima er best

Það getur verið varasamt að treysta á langa og einsleita birgðakeðju sem búið er að besta aðeins of mikið. Hún á það til að slitna á veikasta hlekknum þegar á reynir. Matvæli, lyf, lækningatæki og aðrar mikilvægar vörur verða í auknum mæli framleiddar nær þeim stað sem neyslan á sér stað. Bretar tala t.d. í fullri alvöru um að þjóðin þurfi að verða sjálfri sér næg þegar kemur að heilbrigðismálum. Það sé ekki hægt að vera upp á aðra komin í þessum efnum, ekki einu sinni nágranna sína. Þessi hugsun gæti hæglega yfirfærst á aðra geira sem gegna mikilvægu hlutverki í gangverkinu.

Margir voru farnir að tala um “af-hnattvæðingu” og faraldurinn hefur bara flýtt fyrir þeirri þróun.

Mun það líka eiga við um tæknilausnir? Eða erum við sátt við að fela fjarlægum alþjóðlegum tæknifyrirtækjum að annast tæknilega innviði samfélagsins? Í auknum mæli verða þetta innviðir sem safna gögnum og taka jafnvel ákvarðnir á grundvelli þeirra með sjálfvirkum hætti — t.d. í menntakerfi, heilbrigðiskerfi og annari opinberri þjónustu.

Líklega viljum við, notendurnir, hafa skilning, yfirsýn og stjórn á slíkum kerfum.

Faraldurslexían yfirfærist

Svo má vera að við lærum eitt og annað af faraldrinum og viðbrögðum okkar við honum. Jafnvel að sú lexía muni yfirfærast á umhverfismálin. Þar hafa vísindamenn verið duglegir að vara okkur við og hvatt okkur til þess að breyta venjum okkar áður en það verður of seint. Þeir eru að teikna upp fyrir okkur líklegan raunveruleika sem gæti bankað upp á í nánustu framtíð. Okkur hugnast hann alls ekki. Þá kjósa margir að horfa eitthvert annað.

Fyrir nokkrum árum varaði Bill Gates við heimsfaraldri en talaði fyrir daufum eyrum. En fyrst faraldursspádómurinn gat rætst þá er líklega skynsamlegt að taka spádóma um hamfarahlýnun alvarlega. Við höfum ekki efni á því að tapa því veðmáli.

Jarðvegurinn fyrir umfangsmiklar aðgerðir í umhverfismálum hefur líklega aldrei verið frjórri — þótt hópurinn sem vill fremur stinga hausnum ofan í jarðveginn verði sífellt forhertari. Framundan eru því tækifæri fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem vilja láta gott af sér leiða á þessu sviði.

Og það eru þegar vísbendingar um að pólitíkin sé að breytast…

Gagnadrifin barátta skilar árangri

Samfélög sem náð hafa góðum árangri í baráttunni gegn faraldrinum hafa reitt sig á þekkingu vísindamanna, áreiðanlega söfnun gagna og tekið gagnadrifnar ákvarðanir. Þessi vísindalegi ákvarðanatökuprósess er í fréttum á hverju kvöldi og við erum reynslunni ríkari.

Auðvelt er að yfirfæra lexíuna á rekstur fyrirtækja.

“Burt með ykkar gögn og tilheyrandi blaður, ég veit betur!” er strategía sem sumir komast upp með þegar vel gengur. Árangur næst þrátt fyrir bægslaganginn því önnur og öflugri öfl eru á bakvið gengið góða. Við erfiðar aðstæður getur þessi strategía banvæn.

Bent hefur verið á að þessi sömu samfélög eru ansi líkleg til að hafa valið sér kvenleiðtoga. Hér má nefna Ísland, Nýja Sjáland, Singapore, Taiwan, Noreg, Finnland, Danmörku og Þýskaland.

Kvenleiðtogar eru við völd í um 15% ríkja heims. Mörg þeirra hafa staðið sig vel. Það er staðreynd.

Svo erum við þegar með nokkur áberandi klúður í baráttunni, sérlega á Vesturlöndum. Þar eru við völd karlkyns leiðtogar með ofurtrú á eigin getu og hyggjuviti. Dæmin sem ég hef í huga eru Brasilía, Bretland og Bandaríkin.

Og það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að búa hér til aðra lexíu og yfirfæra á rekstur og ákvarðanatöku innan fyrirtækja.

Tek þó fram að hér er ekki um mjög gagnadrifna eða vísindalega úttekt að ræða þegar kemur að frammistöðu kven- og karlleiðtoga í baráttunni við faraldurinn.

Ég segi því ekki meir.

--

--

Framtíðin er gagnadrifin

Love podcasts or audiobooks? Learn on the go with our new app.

Get the Medium app

A button that says 'Download on the App Store', and if clicked it will lead you to the iOS App store
A button that says 'Get it on, Google Play', and if clicked it will lead you to the Google Play store