“Occidentali’s Karma”

Listin að lenda með báða fætur á jörðinni

Binni Borgar hjá DataLab
5 min readApr 28, 2020

--

Samfélagið leitar jafnvægis í kjölfar fyrstu bylgju faraldursins.

Raunveruleikinn bankaði upp á — eins og hann gerir reglulega — og við höfum nú áttað okkur á því að hið nýja jafnvægi þarf að gera ráð fyrir möguleikanum á annarri og jafnvel þriðju bylgju. Og svo gætu fleiri farsóttir komið fram á næstu árum. Fyrst þessi gat það.

Þetta er nýr raunveruleiki. Frábrugðinn þeim gamla. Við kveðjum hann.

Jafnvægið næst en á nýjum forsendum.

Gildismatið breytist og ný forgangsröðun lítur dagsins ljós.

Hjá fólki og fyrirtækjum.

Og höfum í huga að breytingar þurfa ekki að eiga sér stað hjá mjög stórum hópi til að hafa mikil og varanleg áhrif á allt samfélagið.

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi

Þúfan þarf bara að vera nægjanlega stór og “rétt” staðsett til að hafa þessi úrslitaáhrif.

Og þá er listin að lenda með báða fætur á jörðinni og láta breytingarnar vinna með sér.

Fimm straumar á fleygiferð

Hér eru fimm straumar sem faraldurinn hefur flýtt eða ýtt undir og við höfum ríka ástæðu til að fylgjast með.

  1. Snjallvæðing veitir forskotið
  2. Hið opinbera á og má
  3. Heima er best
  4. Faraldurslexían yfirfærist
  5. Gagnadrifin barátta skilar árangri

Snjallvæðing veitir forskotið

Flestir sem vettlingi geta valdið eru farnir að bjóða upp á stafrænar lausnir og þjónustu. Framboð og eftirspurn eftir stafrænum lausnum hefur og mun halda áfram að aukast hratt á næstu misserum.

Leitin hefst því að aðgreinandi þætti sem tekur við keflinu. Hjá Data Lab Ísland veðjum á snjallvæðinguna enda er það náttúrulegur arftaki þegar stafrænir innviðir eru komnir fram og hafa náð að þroskast. Þá eru þeir byrjaðir að safna áhugaverðum gögnum sem má nýta til að ná forskoti.

Snjallvæðing stafrænna innviða felst einkum í því að hagnýta gögnin sem þeir safna og greiningarlausnir úr smiðju gagnavísinda og gervigreindar. Snjallar lausnir bæta m.a. notendaupplifun og veita þannig samkeppnisforskot. Og það verður hinn aðgreinandi þáttur sem skilur á milli. Við höfum séð þessa þróun erlendis á undanförnum áratug eða svo — efnisveitur, vefverslanir, ýmis (opinber) þjónusta — og nú er röðin komin að Íslandi.

Ísland er að vakna!

Hið opinbera á og má

Já, tími ónefnda ríkisstarfsmannsins er runninn upp.

Ríkið á og má gegna stærra hlutverki á ýmsum sviðum á komandi árum. Rétt eins og það gerði á Vesturlöndum og víðar í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar og fram eftir áttunda áratugnum. Faraldurinn mun fara afar illa með ákveðna geira atvinnulífsins og það mun taka mörg ár að byggja þá upp, oft í breyttri mynd. Ríkið fyllir að einhverju leyti upp í tómarúmið sem myndast.

Til bjargar

Þannig mun hið opinbera í auknum mæli leiða samstarf þar sem einkaaðilar koma við sögu og heildin hagnast. Það er auðvelt að sjá fyrir sér aukið samstarf um þróun stafrænna innviða og snjallvæðingu á sviði menntamála, heilbrigðismála, félagsmála, umhverfismála, samgangna, landbúnaðar, fiskveiða og víðar.

Í slíkum verkefnum gætu vaxið sprotar og lausnir sem síðar skila gjaldeyristekjum.

Heima er best

Það getur verið varasamt að treysta á langa og einsleita birgðakeðju sem búið er að besta aðeins of mikið. Hún á það til að slitna á veikasta hlekknum þegar á reynir. Matvæli, lyf, lækningatæki og aðrar mikilvægar vörur verða í auknum mæli framleiddar nær þeim stað sem neyslan á sér stað. Bretar tala nú um að þjóðin þurfi að verða sjálfri sér næg þegar kemur að heilbrigðismálum. Þessi hugsun yfirfærist smám saman á aðra geira.

Margir voru farnir að tala um “af-hnattvæðingu” og faraldurinn hefur bara flýtt fyrir þeirri þróun.

Mun það líka eiga við um tæknilausnir? Eða erum við sátt við að fela fjarlægum alþjóðlegum tæknifyrirtækjum að annast tæknilega innviði samfélagsins? Í auknum mæli verða þetta innviðir sem safna gögnum og taka jafnvel ákvarðnir á grundvelli þeirra með sjálfvirkum hætti.

Líklega viljum við hafa skilning, yfirsýn og stjórn á slíkum kerfum.

Faraldurslexían yfirfærist

Svo má vera að við lærum eitt og annað af faraldrinum og viðbrögðum okkar við honum. Jafnvel að sú lexía muni yfirfærast á umhverfismálin. Þar hafa vísindamenn verið duglegir að vara okkur við og hvatt okkur til þess að breyta venjum okkar áður en það verður of seint. Þeir eru að teikna upp fyrir okkur líklegan raunveruleika sem gæti bankað upp á í nánustu framtíð. Okkur hugnast hann alls ekki. Þá kjósa margir að horfa eitthvert annað.

Fyrst faraldursspádómurinn gat rætst þá er líklega skynsamlegt að taka spádóma um hamfarahlýnun alvarlega. Við höfum ekki efni á því að tapa því veðmáli.

Fyrir nokkrum árum varaði Bill Gates við heimsfaraldri en talaði fyrir daufum eyrum.

Jarðvegurinn fyrir umfangsmiklar aðgerðir í umhverfismálum hefur líklega aldrei verið frjórri. Framundan eru því tækifæri fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem vilja láta gott af sér leiða á þessu sviði.

Gagnadrifin barátta skilar árangri

Samfélög sem náð hafa góðum árangri í baráttunni gegn faraldrinum hafa reitt sig á þekkingu vísindamanna, áreiðanlega söfnun gagna og tekið gagnadrifnar ákvarðanir.

Við getum auðveldlega yfirfært þá lexíu á rekstur fyrirtækja.

Bent hefur verið á að þessi sömu samfélög eru ansi líkleg til að vera með kvenleiðtoga. Hér má nefna Ísland, Nýja Sjáland, Singapore, Finnland, Danmörku og Þýskaland.

Kvenleiðtogar eru við völd í um 15% ríkja heims. Mörg þeirra hafa staðið sig vel. Það er staðreynd.

Svo erum við með nokkur áberandi klúður í baráttunni. Þar eru við völd karlkyns leiðtogar með ofurtrú á eigin getu og hyggjuviti. Burt með þessi gögn og þvaður, ég veit betur! Dæmin sem ég hef í huga eru Brasilía, Bretland (á fyrstu stigum baráttunnar en svo tóku þau sig taki) og Bandaríkin.

Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að búa hér til aðra lexíu og yfirfæra á rekstur og ákvarðanatöku innan fyrirtækja.

Tek þó fram að hér er ekki um mjög gagnadrifna eða vísindalega úttekt að ræða þegar kemur að frammistöðu kven- og karlleiðtoga í baráttunni við faraldurinn.

Ég segi því ekki meir.

--

--