Fimm straumar á fleygiferð: Fyrri hluti

Raunveruleikinn bankaði upp á og samfélagið leitar nýs jafnvægis.

Gildismatið breytist og ný forgangsröðun lítur dagsins ljós.

Nýr raunveruleiki.

Ég nefndi fimm strauma sem faraldurinn hefur flýtt fyrir eða ýtt undir og við hjá Data Lab Ísland höfum ríka ástæðu til að fylgjast með af því að við teljum að við höfum af þeim viðskiptalega hagsmuni.

Kíkjum á tvo fyrstu.

  1. Snjallvæðing veitir forskotið
  2. Hið opinbera á og má
  3. Heima er best
  4. Faraldurslexían yfirfærist
  5. Gagnadrifin barátta skilar árangri

1. Snjallvæðing veitir forskotið

Allir sem vettlingi geta valdið eru farnir að bjóða upp á stafrænar lausnir og þjónustu. Framboð og eftirspurn eftir stafrænum lausnum hefur og mun halda áfram að aukast hratt á næstu misserum. Þetta er ein af helstu birtingarmyndum faraldursins á Vesturlöndum. Forstjóri Microsoft talar um að heimurinn hefði tekið tveggja ára skammt af stafrænni umbreytingu á tveimur mánuðum.

Leitin hefst því að aðgreinandi þætti sem tekur við keflinu. Hjá Data Lab Ísland veðjum við á snjallvæðinguna enda er það náttúrulegur arftaki þegar stafrænir innviðir eru komnir fram og hafa náð að þroskast. Þá eru þeir byrjaðir að safna áhugaverðum gögnum sem má nýta til að bæta þá enn frekar.

Í okkar orðabók felst snjallvæðing stafrænna innviða einkum í því að hagnýta gögnin sem þeir safna og greiningarlausnir úr smiðju gagnavísinda og gervigreindar. Þegar við streymum gögnunum í gegnum reiknirit af ýmsum stærðum og gerðum getur niðurstaðan orðið ansi snjöll. Að sjálfsögðu er eitt og annað sem kemur við sögu og hlaupið er yfir hér og biðst ég velvirðingar á því.

Segja má að snjallar lausnir bæti notendaupplifun og að allt annað séu afleiddar stærðir — tekjur, tryggð o.s.frv. Þannig veita þær samkeppnisforskot. Og það verður hinn aðgreinandi þáttur sem skilur á milli þegar leikurinn þroskast. Við höfum séð þessa þróun erlendis á undanförnum áratug eða svo — efnisveitur, vefverslanir, ýmis (opinber) þjónusta — og nú eru sterkar vísbendingar um að röðin sé komin að Íslandi.

Ísland snjallvæðist af því að það er farið að meika sens fjárhagslega. Excel skjalið segir “já”.

2. Hið opinbera á og má

Já, tími ónefnda ríkisstarfsmannsins er runninn upp.

Ríkið á og má gegna stærra hlutverki á ýmsum sviðum á komandi árum. Rétt eins og það gerði á Vesturlöndum og víðar í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar og fram eftir áttunda áratugnum. Faraldurinn mun fara afar illa með ákveðna geira atvinnulífsins og það mun taka mörg ár að byggja þá upp, oft í breyttri mynd. Ríkið fyllir að einhverju leyti upp í tómarúmið sem myndast og krafan er tvímælalaust sú að það gerist hratt, nú duga engin vettlingatök.

Hallgrímur Helgason skrifar í bók sinni Sextíu kíló af sólskini um embættismann sem “óvart og óviljandi stendur skyndilega á miðjum krossgötum tímans” (bls. 314). Segir svo…

Því sá er gangur sögunnar. Hún lætur okkur þjarka um millimetra þar til við getum ekki meir. Þá mætir hún með metrana sína til að troða ofan í okkur. Og við erum þá orðin svo þreytt að við getum ekki annað en kyngt þeim hljóðalaust.

Hver er mórallinn hér?

Við erum búin og eigum eftir að sjá ákvarðanir af hálfu hins opinbera sem fyrir nokkrum mánuðum hefðu þótt fjarstæðukenndar og óframkvæmanlegar.

Fordómalausar aðstæður kalla á fáránlega háar upphæðir!

Sjálfur hef ég gaman að því að fylgjast með skrifum Ray Dalio þar sem hann hjálpar okkur að skilja stóra samhengið og líklegar afleiðingar faraldursins á fjármál heimsins.

En færum þetta niður á jörðina.

Hér heima munum við sjá hið opinbera í auknum mæli leiða samstarf þar sem einkaaðilar koma við sögu og heildin hagnast. Það er auðvelt að sjá fyrir sér vaxandi samstarf um þróun stafrænna innviða og snjallvæðingu á sviði menntamála, heilbrigðismála, félagsmála, umhverfismála, samgangna, landbúnaðar og víðar.

Þarna eru nokkrir málflokkar sem beinlínis ÖSKRA á nýjar lausnir…nýsköpun….

….ég ætlaði að enda á því að taka menntamálin og heilbrigðismálin út fyrir sviga en hætti við því þeir öskra allir jafnhátt.

Í slíkum verkefnum gætu vaxið sprotar og lausnir sem síðar skila gjaldeyristekjum.

— — — — — — —

Straumar þrjú, fjögur og fimm í fókus næst.

--

--

Framtíðin er gagnadrifin

Love podcasts or audiobooks? Learn on the go with our new app.

Get the Medium app

A button that says 'Download on the App Store', and if clicked it will lead you to the iOS App store
A button that says 'Get it on, Google Play', and if clicked it will lead you to the Google Play store